Available courses

Tilgangur þessa námsþáttar er að námsmenn auki þekkingu sína og skilning á mikilvægi heilbrigðra lífshátta. Fjallað er um hugtök, kenningar og skilgreiningar sem tengjast lýðheilsu, lífstíl, heilsu og aðferðum til að hafa áhrif á neysluvenjur. Fjallað er um smitleiðir og sýkingarvarnir ásamt mikilvægi góðrar tannheilsu og tannverndar hjá fötluðu fólki eða sjúklingum. Fjallað um áhrif lífshátta á heilbrigði sem og samspil erfða, umhverfis, lífsvenja og geðræktar. Fjallað er um stoðkerfi líkamans og rætt um nauðsyn þess að reyna hæfilega á líkamann, sérstaklega hrygg og liði. Lögð er áhersla á að heilsa og líðan starfsfólks skipti miklu máli og að mikilvægt sé að huga að vinnuaðstöðu og notkun á viðeigandi hjálpartækjum til að draga úr atvinnusjúkdómum í stoð- og hreyfikerfi líkamans.

Tilgangur námsþáttarins er að efla skilning námsmanna á margbreytileika fólks og mismunandi aðstæðum. Grunnatriði erfðafræði eru rædd og hvernig erfðaþættir í samspili við umhverfi móta einstaklinginn og skapa breytileika í mannlífinu. Fjallað er um þroskaferil mannsins frá bernsku til fullorðinsára og rætt um líkamlegan, vitsmunalegan, tilfinningalegan og félagslegan þroska. Fjallað er um mun á fötlun og hömlum og fjallað um hvernig viðhorf í samfélaginu geta haft áhrif á lífsgæði fatlaðs fólks. Hugtakið fötlun er skoðað út frá ýmsum athöfnum daglegs lífs, þar með talið kynlíf, og gefin er innsýn í sérstök frávik og úrræði sem í boði eru. Fjallað er um öldrunarþjónustu við fatlað fólk, ólíkar þarfir og áhrif félagslegra þátta eins og starfsloka, missis og breytinga á búsetu.

Tilgangur námsþáttarins er að auka hæfni námsmanna í að veita stuðning við úrvinnslu á alvarlegum atvikum. Í námsþættinum er fjallað um einkenni áfalla og mismunandi áhrif sálrænna áfalla, einkenni áfallastreitu og leiðir til lausna. Fjallað er um viðbrögð þeirra sem lenda í sársaukafullum aðstæðum og hvernig hægt er að veita stuðning og sýna umhyggju við ýmsar tegundir áfalla.

Tilgangur þessa námsþáttar er að efla hæfni námsmanna í árangursríkum samskiptum. Megináhersla er lögð á samskipti og samvinnu á vinnustað í þeim tilgangi að auka hæfni námsmanna í að taka þátt í að  skapa góðan starfsanda og viðhalda honum. Fjallað er um grunnþætti samskipta svo sem færni í hlustun, ákveðni, ábyrgð, að takast á við álag, setja sig í spor annarra, bregðast við erfiðum aðstæðum, sýna sveigjanleika og geta leyst verkefni í sameiningu. Þjálfaðar eru helstu aðferðir í árangursríku samtali svo sem að hlusta, leiðbeina og sýna raunverulegan áhuga á aðstæðum annarra. Fjallað er um atriði sem geta haft áhrif á kulnun í starfi og þær afleiðingar sem kulnun getur haft fyrir einstaklinginn og vinnustaðinn. Í námsþættinum er einnig fjallað um samskipti í hópum, áhrif þeirra og mikilvægi hópsins fyrir einstakling á mismunandi aldursskeiðum.

Tilgangur námsþáttarins er að efla þekkingu og skilning námsmanna á ýmsum skerðingum og fötlunum, helstu orsökum þeirra og áhrifum á daglegt líf fólks. Megináhersla er lögð á helstu flokka fötlunar og einhverfu. Einnig er farið í það hvernig aukin þekking og skilningur á greiningu og meðferð getur leitt til meiri lífsgæða þeirra sem búa við skerðingar og fatlanir. Fjallað er um mál og tal, tjáskiptaleiðir, heyrnarskerðingu, sjónskerðingu, blindu og hreyfihömlun. Kynnt er notkun hjálpartækja og hvernig þau eru valin. Fjallað er um þjálfunar- og meðferðarþarfir, áhersla er lögð á að efla skilning námsmanna á margbreytileika mannlegra aðstæðna og leiðir til að nálgast stuðning eða sérfræðiþekkingu. Fjallað er um stofnanir sem tengjast ólíkum þörfum og er farið í vettvangsferðir á stofnanir eftir því sem svigrúm er fyrir í náminu.

Tilgangur þessa námsþáttar er að námsmenn öðlist staðgóða þekkingu á uppbyggingu velferðarkerfisins og grundvallarhugmyndum um þjónustu við fatlað fólk. Fjallað er um skilgreiningar sem búa að baki hugtökum, sem og um gildismat, hugmyndafræði og leiðir til að efla gæði þjónustunnar. Fjallað er um helstu áskoranir sem velferðarkerfið stendur frammi fyrir og velt er upp hugmyndum sem miða að því að byggja upp öfluga og virka velferðarþjónustu til framtíðar. Kynntar eru áherslur í stjórnsýslu byggðar á lögum, reglugerðum og öðrum viðmiðum um málefni fatlaðs fólks. Einnig eru kynntar nýjungar í þjónustu við fatlað fólk sem byggir á sjálfseflingu og ákvörðunarrétti um tilhögun daglegs lífs. Loks er fjallað um aðra hópa sem njóta ríkrar verndar, svo sem börn og regluverk barnaverndar, þar sem áhersla er lögð á atriði sem taka þarf tillit til þegar um fötlun er að ræða.